Viðskiptahraðallinn Startup Reykjavík fer fram í áttunda skipti í sumar en verkefnið hefur, að því er kemur fram í fréttatilkynningu, fest sig í sessi sem eftirsóttur vettvangur fyrir sprotafyrirtæki sem vilja þróa áfram viðskiptahugmyndir sínar og hraða vexti undir leiðsögn sérfræðinga. Lögð er áhersla á að velja til þátttöku öflug teymi með nýjar lausnir ætlaðar alþjóðamarkaði.

Alls bárust um 200 umsóknir og vekur það athygli að fyrirtækin sem valin hafa verið eru lengra komin en oft áður, flest þeirra hafa nú þegar hafið starfsemi og eru byrjuð að afla tekna.

Startup Reykjavík er samstarfsverkefni Arion banka og Icelandic Startups. Arion banki fjármagnar verkefnið og fjárfestir í þeim fyrirtækjum sem taka þátt. Icelandic Startups hefur umsjón með verkefninu sem hefst þann 11. júní n.k.

Þátttakendur Startup Reykjavík 2019 eru eftirtaldir:

Baseparking

Bílastæðaþjónusta á Keflavíkurflugvelli sem hefur þjónustað yfir 20.000 viðskiptavini.

CheckMart

Skilvirkt innviða- og vistkerfi fyrir stafrænar verslanir.

Hvíslarinn

Hugbúnaðarlausn sem stuðlar að betri og öruggari þjónustu við sjúklinga með því að nýta snjalltækni, sjálfvirkni og gervigreind til að auka tímanýtingu og skilvirkni heilbrigðisstarfsfólks.

Íslensk Gervigreind

Stafrænn starfsmaður í skýinu sem einfaldar verkferla og þjónustu fyrirtækja.

Proency

Heilsutæknilausn fyrir fagfólk sem nýtir gervigreind til þess að auka skilvirkni sálfræðilegra aðferða og auðvelda innleiðingu heilsueflingu innan fyrirtækja.

Rafíþróttaskólinn

Félagslegur og stuðningsríkur vettvangur fyrir rafíþróttaspilara til þess að efla iðkendur félagslega og hjálpa þeim að stíga sín fyrstu skref í sínum rafíþróttaferli.

Rebutia

Gervigreindar hugbúnaður sem velur fatnað út frá ítarlegri greiningu á líkamsbyggingu notenda og hjálpar þeim að uppgötva fatastíl sem er sniðinn að þörfum hvers og eins.

SmartSampling

Hugbúnaður fyrir vörukynningarfyrirtæki sem býður upp á betri og skilvirkari leið til þess að fá upplýsingar frá viðskiptavinum um vörur.

Snorricam

Háþróað tól fyrir kvikmyndatöku sem fest er á líkamann og gerir kvikmyndagerðarfólki kleift að ná einstökum sjónarhornum.

TrackEHR

Hugbúnaðarlausn til að miðla upplýsingum um meðferðarplan og sjúkdómsgang á öruggan og skilvirkan hátt til inniliggjandi sjúklinga á sjúkrahúsum.

Fyrirtækin tíu njóta leiðsagnar reyndra frumkvöðla, fjárfesta og annara sérfræðinga yfir tíu vikna tímabil í þeim tilgangi að þróa áfram viðskiptahugmyndir sínar, undirbúa markaðssókn og hraða vexti. Í gegnum dótturfélagið Startup Reykjavík Invest ehf. fjárfestir Arion banki í hverju fyrirtæki fyrir 2,4 milljónir króna gegn 6% eignarhlut.

Frá árinu 2012 hafa 68 fyrirtæki tekið þátt í Startup Reykjavík og er rúmlega helmingur þeirra enn starfandi. Alls hafa þau fengið um fjóra milljarða íslenskra króna í fjármögnun, þar af er um 65% hlutafé og 35% styrkir.