Á morgun munu tíu fyrirtæki stofna ný Samtök leikjaframleiðenda, IGI – Icelandic Gaming Industry. Í tilkynningu kemur fram að á Íslandi starfa rúmlega 300 manns við þróun, markaðssetningu og sölu á tölvuleikjum. Mikill vöxtur hefur verið í þessum geira seinasta árið þrátt fyrir hina gríðarlegu niðursveiflu sem orðið hefur í kjölfar bankahrunsins. Sameiginlegar tekjur leikjafyrirtækjanna árið 2009 stefna í rúmlega 10 milljarða og flest þeirra eru að leita að starfsfólki til að mæta aukinni eftirspurn.

Stærstu fyrirtækin eru CCP sem reka EVE Online og hafa tvo aðra leiki í þróun, Betware sem þróa lausnir fyrir happdrætti og Gogogic sem smíða iPhone og fjölspilunarleiki. Auk þeirra er fjöldi smærri fyrirtækja sem eru að vinna í þróun á nýjum titlum sem væntanlegir eru á markað á þessu eða næsta ári.

Alþjóðlegt fyrirtæki setur upp skrifstofu hér

Alþjóðlega fyrirtækið Sauma Technologies setti nýverið upp skrifstofu hér á landi sem er til marks um hvernig erlendir aðilar horfa til Íslands fyrir uppbyggingu eigin fyrirtækja. IGI sjá fyrir sér ótakmörkuð tækifæri til vaxtar á komandi árum. Markmiðið er að árið 2013 verði á Íslandi starfandi tugir fyrirtækja í leikjaiðnaði með þúsundir starfsmanna. Samtökin sjá fyrir sér fjölbreytta og framsækna útflutningsgrein, sem byggir að verulegu leiti á rafrænum viðskiptum.

Í tilkynningu segir að Samtök íslenskra tölvuleikjafyrirtækja - IGI - er  ætlað að vera öflugur vettvangur sem veitir tölvuleikjaframleiðendum stuðning og margvíslega þjónustu. Sem dæmi má nefna aðstoð við innlend og erlend almanntengsl (PR), tengsl við skóla og atvinnulíf og aðstoð við umsókn styrkja.

Hlutverk samtakanna er að stuðla að auknu samstarfi hagsmunaaðila. Samtökin verða leiðandi í því öfluga og skapandi samstarfi fyrirtækja, menntastofnana, stjórnvalda um þekkingaruppbyggingu og tækni sem einkennir greinina. Hér ber helst að nefna virkt samstarf háskólanna og leikjafyrirtækjanna sem leitt hefur til alþjóðlegrar viðurkenningar. IGI mun starfa sem starfsgreinhópur innan Samtaka iðnaðarins.