Íbúðaverð í fjölbýli í Reykjavík hefur hækkað um 10% það sem af er ári. Staðgreiðsluverðið var að meðaltali 158 þús. kr. á fermetra í kaupsamningum í desember í fyrra en var komið upp í 174 þús. kr. í febrúar í ár. Fyrir 100 fermetra íbúð merkir þetta hækkun upp á tæplega 1,6 m.kr. segir í Morgunkorni Íslandsbanka.

Tölur þessar eru fengnar frá Fasteignamati ríkisins og byggja á þeim samningum sem þegar hefur verið þinglýst. Þessar tölur endurspegla þá miklu eftirspurn sem er á húsnæðismarkaði í Reykjavík um þessar mundir. Fermetraverðið hefur hækkað um 3,4% á milli janúar og febrúar sem er heldur minna en á milli desember og janúar þegar hækkunin mældist 6,3%. Ótímabært er hins vegar að draga þá ályktun að hægt hafi á hækkun fasteignaverðs þar sem hluti samninga frá síðari hluta febrúarmánaðar á eftir að skila sér til Fasteignamatsins. Hækkunin í febrúar mun sennilega mælast meiri þegar endanlegar tölur liggja fyrir.

Byggt á Morgunkorni Íslandsbanka.