Í apríl fagnar Viðskiptablaðið 20 ára afmæli. Í tilefni af því rifjar blaðið upp áhugavert fréttaefni úr sögu blaðsins. Þann 10. Maí 1994 birtist frétt um velgengni Sjónvarpsmarkaðarins.

Hún var svohljóðandi:

Sjónvarpsmarkaðurinn, sem er samvinnuverkefni kvikmyndafyrirtækisins Verksmiðjunnar hf. og Stöðvar 2, hefur byrjað vel þó að hann hafi einungis verið í loftinu í átján daga. Að sögn Viðars Garðarssonar hjá Verksmiðjunni, eins aðstandenda Sjónvarpsmarkaðarins, hafa viðtökur fólks verið ótrúlega góðar og allar áætlanir aðstandenda um sölu farið langt fram úr björtustu vonum. Söluáætlanir hefðu farið 100% fram úr áætlunum.

„Það ánægjulega við viðtökur Sjónvarpsmarkaðarins er að við finnum fyrir ákaflega miklu þakklæti frá landsbyggðinni. Við gerðum okkur hreint ekki grein fyrir því að í raun erum við að bæta við nýrri verslun í flestöllum kauptúnum á landinu og um leið auka það vöruúrval sem stendur landsbyggðarfólki til boða í heimabyggð.“

Að sögn Viðars urðu þeir ekki síst hissa á viðtökum markaðarins þar sem aðstandendur Sjónvarpsmarkaðarins hafa verið með tilraunakennt vöruúrval, sem er leið til að finna út hvað sé æskilegt að bjóða til sölu í sjónvarpi.