Starfsmönnum Plain Vanilla hefur fjölgað ört frá því að QuizUp spurningaleikurinn kom út í nóvember síðastliðnum. Í byrjun þessa árs hófu 10 nýir starfsmenn störf hjá fyrirtækinu. Nýju starfsmennir starfa meðal annars við þjónustu við notendur, ritstjórn spurningabankans á bakvið leikinn (sem er sá stærsti sinnar tegundar í heiminum) og við þróun Android útgáfu leiksins sem gefin var út í gær.

Eftirtaldir starfsmenn hófu störf hjá fyrirtækinu í janúar og febrúar:

Árni Birgisson - Kerfisstjórn. Árni starfar við kerfisstjórn hjá Plain Vanilla en hann var aðeins 15 ára þegar hann byrjaði að starfa í tölvugeiranum. Eftir menntaskóla hóf hann flugnám og lauk atvinnuflugmannsprófi en tölvuheimurinn togaði sterkt í hann.Árni hefur sérhæft sig í netkerfum og kerfisrekstri og tekið að sér kennslu í fræðum tengdum því. Hann starfaði áður hjá Men & Mice og FATTOC.

Árni Hermann Reynisson - Hugbúnaðarsérfræðingur. Árni Hermann hefur hafið störf sem hugbúnaðarsérfræðingur hjá Plain Vanilla en hann er með meistaragráðu í hugbúnaðarverkfræði frá Háskólanum í Reykjavík. Hann hefur starfað við hugbúnaðarþróun í áratug, m.a. hjá Gagnavörslunni og Spretti.

Ásgeir Berg Matthíasson - Ritstjórnarteymi. Ásgeir Berg hefur hafið störf í ritstjórnarteymi Plain Vanilla. Hann er með meistaragráðu í rökfræði frá University of Amsterdam og þegar hann hóf störf hjá Plain Vanilla var hann í meistaranámi í heimspeki í St. Andrews. Ásgeir komst í undanúrslit í Gettu betur fyrir hönd MA árið 2005 og vann svo keppnina fyrir sama skóla árið eftir.

Berglind Sigurðardóttir - Aðstoðarmaður fjármálastjóra. Berglind starfar sem aðstoðarmaður fjármálastjórans, Ýmis Arnar Finnbogasonar. Hún er með meistaragráðu í fjármálum fyrirtækja. Hún vann hjá Rannsóknarnefnd Alþingis og áður sem sérfræðingur á fjármálasviði Skeljungs.

Dana Rún Hákonardóttir - Ritstjórnarteymi. Dana Rún hefur hafið störf í ritstjórnarteymi Plain Vanilla. Hún er með B.A.-gráðu í Music and Media Management frá London Metropolitan University og er í meistaranámi í markaðsfræðum og alþjóðaviðskiptum í HÍ. Hún vann sem tengiliður við listamenn hjá Iceland Airwaves í tvö ár og var m.a. í verkefnastjórn Gulleggsins hjá Innovit.

Grétar Þór Sigurðsson - Ritstjórnarteymi. Grétar Þór hefur hafið störf í ritstjórnarteymi Plain Vanilla. Hann er triviasení sem vann Gettu betur fyrir MR 2013 og var í Útsvarsliði Reykjanesbæjar þetta árið.

Ingunn Guðmundsdóttir - Aðstoðarmaður framkvæmdastjóra. Ingunn hefur hafið störf sem aðstoðarmaður framkvæmdastjóra Plain Vanilla, Þorsteins Baldurs Friðrikssonar. Hún er með B.A.-gráðu í sagnfræði frá HÍ með kynjafræði sem aukagrein. Hún vann áður hjá Latabæ, m.a. í framleiðslu og sem aðstoðarmaður Magnúsar Scheving, og hjá viðburðafyrirtækinu Practical.

Sigmar Sigfússon - Notendaþjónusta. Sigmar starfar í notendaþjónustunni. Hann starfaði áður hjá fyrirtækjasviði Nova og hjá íþróttadeild 365.

Sigurður Jónsson - Android forritari. Sigurður er android-forritari en hann er með B.Sc.-gráðu í tölvunarfræði frá HÍ og starfaði undanfarin þrjú ár hjá Gogogic við leikjaþróun.

Vigdís Hlíf Jóhönnudóttir - Skrifstofustjóri Vigdís Hlíf hefur hafið störf sem skrifstofustjóri Plain Vanilla. Hún vann hjá Iceland Travel í rekstri hópa, og þar áður á Icelandair Hotel Marina.

Þessir tíu eru þó aðeins hluti þeirra sem hafið hafa störf hjá Plain Vanilla að undanförnu. Í lok síðasta árs hófu meðal annars störf hjá fyrirtækinu: Birta Svavarsdóttir og Stígur Helgason bættust í ritstjórnarteymið, Friðrik Már Jónsson í hugbúnaðarþróun, Guðfinnur Sveinsson, yfirmaður notendaþjónustu, Júlía Hermannsdóttir, umsjón með netsamfélagi QuizUp og Stefanía Bjarney Ólafsdóttir, yfirmaður rannsókna og greininga.