*

laugardagur, 30. maí 2020
Innlent 20. ágúst 2019 15:47

10% samdráttur tekna fyrir gistingu

Íslandshótel töpuðu tæpum 200 milljónum á fyrri helmingi ársins, og tekjur drógust saman um 9% milli ára.

Ritstjórn
Davíð Torfi Ólafsson er framkvæmdastjóri Íslandshótela.
Haraldur Guðjónsson

Tekjur Íslandshótela námu tæpum 4,9 milljörðum króna á fyrri helmingi ársins og drógust saman um 9% milli ára. 184 milljóna króna tap var á rekstrinum á tímabilinu, en á sama tímabili í fyrra hagnaðist félagið um 293 milljónir. Þetta kemur fram í nýbirtum árshlutareikningi félagsins.

Um tveir þriðju hlutar teknanna voru tilkomnir vegna seldrar gistingar, en sá liður dróst saman um 10% milli ára. Bróðurpartur afgangsins voru seldar veitingar, sem drógust saman um 4,3%.

Að tekjum undanskildum var rekstrarreikningur félagsins í megindráttum svipaður og í fyrra, nema hvað „annar rekstrarkostnaður“ dróst saman um 300 milljónir, en afskriftir jukust á móti um rúmar 200, auk þess sem aðrir liðir hækkuðu nokkuð.

Eigið fé nam 16,3 milljörðum króna í lok tímabilsins samanborið við 16,8 í lok síðasta árs. Heildareignir námu 47,6 milljörðum sem er um fimmtungsaukning frá áramótum, og var eiginfjárhlutfall því 34,3%, samanborið við 42,5% um síðustu áramót.

Sem kunnugt er vinnur félagið að byggingu fjögurra stjörnu hótels við Lækjargötu, sem áætlað er að opni í byrjun árs 2021.

Stikkorð: Íslandshótel