Reitir hyggjast byggja um 10 þúsund fermetra atvinnuhúsnæði í Skútuvogi 8 að því er fram kemur í frétt fasteignafélagsins.

Er heimilt samkvæmt gildandi deiliskipulag að byggja 8.200 fermetra hús að grunnfleti sem gæti verið allt að 11.200 fermetrar að stærð með milligólfum, en fyrst og fremst er horft til þess að á lóðinni rísi vöruhús.

Í tilkynningu frá Reitum er sagt að staðsetning hússins sé afar góð með tilliti til vörudreifingar, vegna nálægðar við hafnarsvæði bæði Eimskip og Samskip.

En einnig komi önnur starfsemi til greina því í aðalskipulagi Reykjavíkur sé gert ráð fyrir rýmisfrekri verslun, heildsölu, þjónustu og léttum iðnaði.

Lóðin er einnig sögð vel staðseti með tilliti til nýs íbúðarhverfis, Vogabyggðar, sem áformað er að rísi í stað gamla iðnaðarhverfisins sem þar er nú.

Auglýsir fasteignafélagið nú eftir áhugasömum leigutökum sem hafi áhuga að koma að hönnun og þróun hússins sem geti þá fengið sérhannað húsnæði utan um sína starfsemi.