Verðbólga á evrusvæðinu mældist 10% í september, samkvæmt gögnum frá Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins. Verðbólgan hefur aldrei verið meiri, en hún mældist 9,1% í ágúst.

Hagfræðingar höfðu spáð fyrir um 9,7% verðbólgu, að því er kemur fram í grein FT. Orkuverð hækkaði um 40,8% á milli ára í september. Verð á matvælum, áfengi og tóbaki hækkaði um 11,8% milli ára.

Kjarnaverðbólgan, sem undanskilur sveiflukennda vöruflokka á borð við orku og matvæli, nam 4,8% í mánuðinum og hækkaði um 0,5 prósentustig milli mánaða.

Evrópski seðlabankinn segir verðbólguna orðna „alltof háa“ og ætlar sér að halda áfram að hækka vexti þar til verðbólgan hægir á sér. Bankinn hefur hækkað vexti um 1,25 prósentustig á síðustu tveimur vaxtaákvörðunarfundum, úr 0% í 1,25%. Markaðsaðilar telja stýrivaxtahækkun upp á 0,75 prósentustig framundan á næsta fundi bankans í lok október.

Samræmd vísitala neysluverðs í Hollandi mældist 17% í september, en hún var 13,7% í ágúst. Þá dróst samræmda verðbólgan í Frakklandi saman milli mánaða, fór úr 6,6% niður í 6,2%.