Ferðaskrifstofan Nordic Visitor sem selur ferðamönnum pakkaferðir til sjö landa, mælir gríðarlega aukningu ferðamanna til Íslands þá mánuði sem ekki teljast til háannatíma. Í tilkynningu segir að á nýliðnu ári hafi það gerst í fyrsta skipti að Nordic Visitor bókaði fleiri ferðamenn í ferðir á tímbilunum janúar til maí og september til desember, en yfir sumarmánuðina. Hlutfall þeirra sem kom til Íslands á haust og vetrartíma var 55% og námu tekjur af þeim ferðamönnum um 45% af veltu vegna ferða til Íslands á vegum Nordic Visitor.

Undanfarin þrjú ár hefur aukning í janúarmánuði mælst um og yfir 100% milli ára. Febrúar og desember mánuðir hafa líka vaxið mjög mikið og eru nú orðnir svipaðir í fjölda ferðamanna á vegnum Nordic Visitor og maí og september.

Tíu þúsund ferðamenn

Nordic Visitor var stofnað árið 2002 og hefur starfstöðvar á Íslandi og í Svíþjóð. Í tilkynningunni segir að Vefir Nordic Visitor fái fjöldamargar heimsóknir frá erlendum netnotendum og séu í hópi mest heimsóttu vefja á íslandi. Þannig var gestafjöldi á vef félagsins 1,2 milljónir árið 2012 og gera áætlanir ráð fyrir 1,5 milljónum gesta á yfirstandandi ári.

Árið 2012 voru um tíu þúsund ferðamenn sem keyptu þjónustu af Nordic Visitor. Stærsti hluti veltu félagsins er vegna Íslandsferða eða um 70%. Nordic Visitor býður upp á meira en 200 mismunandi pakkaferðir til níu áfangastaða, sem eru; Ísland, Noregur, Svíþjóð, Grænland, Lappland, Svalbarði, Danmörk, Finnland og Færeyjar. Alls vinna 45 starfsmenn hjá Nordic Visitor, þar af flestir á aðalskrifstofu félagsins við Bríetartún 13 í Reykjavík.