66°Norður og Íslenskir fjallaleiðsögumenn sameina krafta sína á ný og bjóða upp á hina vinsælu æfingaráætlun „Toppaðu með 66°Norður og Íslenskum Fjallaleiðsögumönnum“. Þetta er í sjötta skipti sem verkefnið er haldið en það veitir fólki tækifæri til að æfa sig fyrir göngu á Hvannadalshnjúk. Hnjúkurinn er 2.110 metra hár á suðurhluta Vatnajökuls.

Þjálfunin hefst í mánuðinum og nær hámarki með ferð á Hvannadalshnjúk. Þátttakendur geta valið um tvær dagsetningar, 25.maí eða 1. júní. Í fyrra reyndu hátt í 100 manns að standa á toppi Hvannadalshnjúks eftir að hafa tekið þátt í æfingadagskrá Toppaðu. Veður hamlaði því hins vegar að allir kæmust á toppinn.

Fram kemur í tilkynningu að áætlun verkefnisins er í tveimur þáttum. Annars vegar eru sextán göngur, m.a. á Fimmvörðuháls sem ætlað er að efla kunnáttu, líkamlegt form og reynslu þátttakenda áður en haldið er á Hvannadalshnjúk. Hins vegar eru fyrirlestrar og námskeið þar sem þátttakendur eru fræddir um næringu, klæðnað, búnað, öryggi og umhverfislega ábyrgð.

Dagskráin hefst með kynningarfundi miðvikudaginn 16. janúar næstkomandi. Hann verður haldinn í verslun 66°Norður í Faxafeni klukkan 20.