Bandaríski seðlabankinn mun bjóða fjármálastofnunum 100 milljarða dollara á uppboði í apríl. Aðgerðirnar eru í takt við fyrri aðgerðir bankans og eru viðhafðar með það að augnamiði að slá á ótta fjárfesta við frekari lausafjárþurrð á alþjóðlegum fjármálamörkuðum.

Nú þegar hefur seðlabankinn dælt 260 milljörðum dollara inn í hagkerfið. Í þetta skiptið mun fjárfestingabönkum einnig bjóðast að fá lánað fé hjá Seðlabankanum, en hingað til hafa einungis viðskiptabankar notið opinberra lánveitinga.

Ben Bernanke, seðlabankastjóri, mun koma fyrir bandaríska þingið í næstu viku og mun þá svara fyrir aðgerðir sínar.