Denise Coates, stofnandi og forstjóri veðmálafyrirtækisins Bet365, var með 421 milljón punda í laun á síðasta ári eða tæplega 74 milljarða króna. Til viðbótar fékk hún arðgreiðslu upp á 48 milljónir punda. Samtals námu tekjur hennar því 469 milljónum punda árið 2020 eða tæplega 99,7 milljörðum króna. Frá þessu er greint á vef Financial Times.

Árið 2019 var Coates með 277 milljónir punda í laun og hækkuðu launin því um tæplega 50% á milli ára. Hefur launahækkunin vakið nokkra athygli í ljósi þess að tekjur Bet365 Group  lækkuðu um 8% á milli ára. Í fyrra námu tekjurnar 2,8 milljörðum punda eða 490 milljörðum króna. Forsvarsmenn Bet365 segja að heimsfaraldurinn hafi haft mikil áhrif á reksturinn í fyrra, þar sem fjöldi íþróttakappleikja og stórmóta féllu niður en stór hluti tekna fyrirtækisins eru tengd veðmálum á úrslit íþróttaleikja.

Coates hefur undanfarin ár verið launahæsti forstjóri Bretlandseyja og raunar einn allra launahæsti forstjóri veraldar. Laun hennar í fyrra voru sem dæmi sjö sinnum hærri en laun Tim Steiner, forstjóra Ocado, launahæsta forstjóra fyrirtækis í FTSE 100 (hlutabréfavísitala 100 verðmætustu fyrirtækja Bretlands).

Denise Coates er menntuð í hagrannsóknum. Hún starfaði um tíma hjá Provincial Racing, veðmálafyrirtæki sem var í eigu föður hennar, Peter Coates. Árið 2000 keypti hún lénið Bet365.com og ári seinna var veðmálasíðan sett í loftið. Á síðustu árum hefur veðmálasíðan verið ein sú stærsta í veröldinni.

Höfuðstöðvar Bet365 Group eru í borginni Stoke-on-Trent og er félagið eigandi knattspyrnuliðsins Stoke City, sem í dag leikur í næstefstu deildinni á Englandi.