Á síðasta ári jókst vöruskiptahallinn við útlönd um 60% frá árinu áður, en árið 2017 nam hann 172 milljörðum króna sem er hærra hlutfall af landsframleiðslu en hann hefur verið í heilan áratug.

Hins vegar var viðskiptaafgangurinn í heild sína talsverður vegna myndarlegs afgangs af þjónustuviðskiptum, sem Greining Íslandsbanka áætlar að hafi numið ríflega 270 milljörðum króna á síðasta ári.

Þar með hafi viðskiptaafgangurinn árið 2017 numið í heild sína 100 milljörðum króna, en bankinn segir líkur á að afgangurinn yrði minni í ár en í fyrra vegna hægari vöxt í komu ferðamanna hingað til lands.

Vöruviðskiptahallinn tvöfaldast milli ára

Miðar bankinn við nýbirtar bráðabirgðatölur Hagstofunnar fyrir desembermánuð sem sýnir að hallinn á vöruviðskiptum nam ríflega 20 milljörðum króna, sem er ríflega tvöfalt meiri halli en í sama mánuði árið 2016 og nokkuð yfir meðaltali ársins 2017.

Telur bankinn að það skýrist af bæði óvenjurýrum útflutningi sjávarafurða í mánuðinum meðan mikið var flutt inn af bæði hrá- og rekstrarvörum, en sérstaklega flutningatækjum sem kom til af breytingum sem tóku gildi um mánaðamótin á opinberum gjöldum af bílaleigubílum.

Útflutningurinn stóð í stað

Þegar skoðað er magn inn- og útflutnings sést að útflutningurinn stóð nánast í stað meðan innflutningurinn jókst um 10%, sem bankinn bendir á að sé kunnuglegur fylgifiskur hækkandi raungengis.

Í fyrra hafi það að jafnaði verið 12% hærra en árið áður mælt miðað við hlutfallslegt verðlag sem er hæsta raungengi sem verið hefur í áratug. Hröðust hafi aukningin verið í innflutningi neysluvara, eða um 20%, þá sérstaklega í innflutningi ökutækja til einkanota eða um 40% og varanlegra neysluvara eins og heimilistæki eða um 23%.

Á sama tíma hafi dregið úr vexti innflutnings fjárfestingarvara, sem jókst um 6% á fyrstu 10 mánuðum síðasta árs, meðan vöxturinn árið 2016 hafi numið 19%.