*

sunnudagur, 16. maí 2021
Innlent 12. apríl 2021 15:34

100 störf í lyfjaþróun á Akureyri

Læknirinn Hákon Hákonarson stefnir á að koma á fót umfangsmikilli lyfjaþróun og framleiðslu á Akureyri.

Ritstjórn
Hákon segir fyrirtækið geta verið líflínu fyrir þá líffræðinga sem ljúka námi við Háskólann á Akureyri, þar sem þeir neyðist oft til að flytja úr bænum vegna skorts á störfum á sérsviði þeirra.

Læknirinn Hákon Hákonarson, sem starfar sem slíkur í Bandaríkjunum, stefnir á næstu misserum á að koma á fót umfangsmikilli lyfjaþróun og framleiðslu á Akureyri. Vinnur fyrirtæki hans nú að þróun fimm lyfja, að því er Akureyri.net greinir frá.

Fyrirtæki Hákons á Akureyri, Arctic Therapeutics, var stofnað fyrir nokkrum árum og starfa þar í dag nokkrir starfsmenn við rannsóknir. Í samtali við Akureyri.net segir Hákon að það séu aðeins fyrstu skrefin.

„Ég stefni að því að byggja upp lyfjaþróunaratvinnuveg á Akureyri; markmiðið er að starfsmenn verði um 100 eftir tvö til þrjú ár. Við erum að leita að fjárfestum, áhugi virðist fyrir hendi og ég er nokkuð viss um að okkur tekst að ná því fjármagni sem við þurfum," hefur Akureyri.net eftir honum.

Þá segir hann jafnframt frábærar aðstæður fyrir hendi á Akureyri fyrir þessa starfsemi. Háskólinn á Akureyri mennti meðal annars líffræðinga sem margir flytji í burtu að loknu námi þar sem ekki sé vinna fyrir þá í bænum. Fyrirtækið gæti verið líflína fyrir þetta fólk. „Bæði væri gott fyrir það að geta tekið þátt í rannsóknum og lyfjaþróun í námi sem myndi gagnast þeim, og svo væri möguleiki á vinnu í framhaldinu," segir Hákon í viðtali við Akureyri.net.