Fleygi menn rusli á á almannafæri á hálendinu eða á þjóðvegum landsins varðar það sekt upp á 100 þúsund krónur verði frumvarp til breytinga á lögum um náttúruvernd samþykkt.

Frumvarpið var lagt fram á lokadegi þingsins af átta þingmönnum Sjálfstæðisflokksins og er Guðlaugur Þór Þórðarson flutningsmaður. Hann telur að frumvarpið verði samþykkt og að sektin sé ekki of há heldur sanngjörn.

„Það er ákveðinn fælingarmáttur í svona hárri sekt en þegar öllu er á botninn hvolft snýst þetta um viðhorf okkar til náttúrunnar,“ segir Guðlaugur Þór í samtali við Viðskiptablaðið. „Það er sérstaklega sláandi að sjá rusl uppi á hálendi. Í auðninni og víðáttunni þar þarf svo lítið rusl til að eyðileggja svo mikið. Það þarf ekki nema eina kókdós."

Guðlaugur Þór segist hafa ferðast ansi víða erlendis og án undantekninga sé minna rusl á þeim stöðum þar sem strangar sektir við því að henda rusli á almannafæri.

„Hugmynd okkar er að það verði sett upp skilti þar sem vegfarendur verða varaðir við því að það varði sekt upp á 100 þúsund krónur að henda rusli. Svona er þetta til dæmis í Kaliforníu og þegar ég var þar fyrir skömmu þá sá ég varla rusl."

Að sögn Guðlaugs Þórs er þetta mál ekki síst mikilvægt vegna ímyndar landsins og ferðamennskunnar.

„Ef það eru dósir og plastpokar úti um allt þá hefur fólk ekki áhuga á að koma hingað aftur. Það er alveg ljóst."

Samkvæmt frumvarpinu er talað um hálendið og þjóðvegina en þjóðvegir eru líka í þéttbýli og má til dæmis nefna Miklubrautina í Reykjavík.

„Ég lít á þetta sem fyrsta skrefið. Ef við náum að halda hálendinu og þjóðvegunum hreinum þá erum við komin ansi langt."

Hann segir að lögreglan muni sjá um að sekta en einnig sé möguleiki á því að landverðir geri það á ákveðnum stöðum.

„Það er bara útfærsluatriði hvernig við stöndum að þessu atriði en bara svo það sé á hreinu þá er ég ekki að tala um aukna löggæslu í kringum þetta."

Guðlaugur Þór segist hafa gert það viljandi að leggja frumvarpið fram núna.

„Ég vildi leggja það fram fyrir sumarið eða rétt fyrir háannatíma ferðamennskunnar. Vonandi verður einhver umræða um þetta mikilvæga mál en það verður kynnt fyrir öllum þingflokkum í haust."

Hann segir augljóslega engar flokkslínur í máli sem þessu og reiknar því með því að frumvarpið verði samþykkt.