Um 500 grísir eru tilbúnir til slátrunar á svínabúi Síldar og fisks og ekki verður beðið lengur en til morguns að hefja slátrunina. Þetta segir Gunnar Þór Gíslason, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, í samtali við Morgunblaðið . Fyrirtækið hefur ekki verið tilbúið að ganga að skilmálum undanþágunefndar Dýralæknafélags Íslands um að kjöt fari ekki á markað gegn því að fá undanþágu til slátrunar.

Gunnar segir ástandið mjög slæmt á svínabúinu. Verði undanþágubeiðni fyrirtækisins fyrir slátrun á 120 til 150 grísum á morgun ekki samþykkt í dag verði grísirnir aflífaðir í kvöld eða á morgun og kjötinu hent. Það samsvari um 100 þúsund máltíðum. Hins vegar eigi eftir að finna lausn á hvernig standa skuli að slíku fjöldadrápi.

Sigríður Gísladóttir, sem situr í stjórn Dýralæknafélags Íslands, segist í samtali við Morgunblaðið gera ráð fyrir að undanþágubeiðninni verði hafnað á fundi nefndarinnar í dag ef ekki fylgir yfirlýsing um að kjötið fari ekki á markað. Segir hún það vera blekkingar af hálfur Síldar og fisks að segja þeirra dýravelferðarvandamál eingöngu út af verkfallinu.