Yfir 100 þúsund farþegar flugu með PLAY í yfir þúsundum flugferðum á fyrstu sex mánuðum félagsins í rekstri, en 48% farþega voru á leið frá Íslandi,. Sætanýting á tímabilinu var 53,2% en aðstæður fyrir flugfélög hafa verið mjög krefjandi vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá flugfélaginu.

Í desember flutti PLAY tæplega 18 þúsund farþega og var sætanýting í mánuðinum 53,2% samanborið við 58,3% í nóvember. Í tilkynningu segir að uppgangur kórónuveirunnar, samkomutakmarkanir og hertar reglur á landamærum á flestum áfangastöðum PLAY hafi valdið einhverju hiki á meðal ferðamanna. Í tilkynningunni segir jafnframt að PLAY sé vel í stakk búið til að takast á við óvissuna sem fylgir faraldrinum með traustri fjárhagsstöðu og miklu handbæru fé.

Bókunum til lengri tíma fjölgar með sama takti og búast mætti við í eðlilegu árferði. Farþegar eru aftur teknir að bóka ferðir með skömmum fyrirvara, ásamt því að vera farnir að bóka ferðir inn í sumarið. Allt er þetta til marks um að farþegar virðast í auknum mæli leiða hjá sér ástand faraldursins þegar kemur að því að bóka ferðir, segir í tilkynningunni. Þess má geta að PLAY mun fljúga til 22 áfangastaða í Evrópu og Norður-Ameríku á komandi ári.

Birgir Jónsson, forstjóri PLAY:

„Nú þegar við lítum til baka yfir viðburðaríkt ár í rekstri PLAY erum við full af eldmóði fyrir komandi tímum. Rekstrarumhverfi allra flugfélaga hefur verið krefjandi en okkur tókst að auka markaðshlutdeild okkar og koma PLAY í mjög góða markaðsstöðu. Þar með erum við í stakk búin til að gernýta komandi uppsveiflu nú þegar við stækkum leiðarkerfi okkar til Bandaríkjanna í vor.Nú erum við að sjá sterka bókunarstöðu um leið og við hefjum sölu á flugi milli Bandaríkjanna og Evrópu. Við höfum þegar náð að leggja grunn að sannarlega frábæru teymi fólks hjá PLAY, teymi sem er afar metnaðarfullt og faglegt. Árið 2021 var ár stórra sigra hjá PLAY og ég hlakka til að vinna áfram með samstarfsfólki mínu í PLAY-liðinu við að mæta nýjum áskorunum og halda áfram sigurgöngunni á komandi ári.“