Mælingar á stærð loðnustofnsins, sem nú standa yfir, munu leiða til þess að Hafrannsóknarstofnun leggi til aukningu í aflamarki í loðnu. Mun aukningin að minnsta kosti nema um 100 þúsund tonnum, að því er fram kemur á vef Hafrannsóknarstofnunar.

Loðnumælingar á vegum Hafrannsóknarstofnunar hafa staðið frá 5. janúar síðastliðnum og munu standa í um viku í viðbót. Loðna hefur fundist mjög víða í leiðangrinum og er útbreiðslan í ár meiri en sést hefur um árabil.

Í kjölfar mælinga á stærð loðnustofnsins í september og október síðastliðnum lagði Hafrannsóknarstofnun til að heildaraflamark vertíðarinnar 2014/2015 yrði 260 þúsund tonn. Ljóst sé, þrátt fyrir að mælingum sé ekki enn lokið, að kvótinn verði aukinn talsvert.

Í Fréttablaðinu í dag kemur fram að útflutningsverðmæti loðnuafurða úr þessum auknu aflaheimildum gæti verið um átta milljarðar króna, að teknu tilliti til ástands á mörkuðum og gengi gjaldmiðla.