Í gær tóku starfsmenn Flugfélags Íslands á Egilsstaðaflugvelli á móti 100 þúsundasta farþeganum sem ferðast með félaginu á milli Egilsstaða og Reykjavíkur á árinu. Farþegar á þessari flugleið hafa aldrei áður verið svo margir en þeim hefur farið ört fjölgandi á síðustu árum. Í fyrra var slegið met á þessari flugleið en nú þegar hafa þriðjungi fleiri farþegar farið með Flugfélaginu en allt það ár.

Gert er ráð fyrir meiri aukningu á næsta ári og í viðtali í Sjónvarpinu sagðist Einar Halldórsson umdæmisstjóri Flugfélags Íslands á Austurlandi reikna með að farþegar geti orðið um 130.000 árið 2005 en það slagar upp í þann fjölda sem flýgur milli Akureyrar og Reykjavíkur, sem voru 147.000 í fyrra.

Einar segir stóran hluta farþega tengjast miklum framkvæmdum á Austurlandi en Flugfélagið flýgur nú 5 ferðir á dag milli Egilsstaða og Reykjavíkur.