Rauneign landsmanna jókst um 96 milljarða í apríl og rauneignir landsmanna hafa aukist um 960 milljarða síðastliðna 12 mánuði að því er fram kemur í hálf fimm fréttum KB banka.

Eignaverðsvísitalan hækkaði um 2,6% að raunvirði í apríl en 24% ef litið er 12 mánaða aftur í tímann. Hækkunina má rekja til þess að fasteignaverð hækkaði um 3,9%, hlutabréfaverð um 5,4% og verð skuldabréfa um 1,4% í apríl. Vísitala neysluverðs til verðtryggingar hækkaði um 0,8% og því var nafnhækkun vísitölunnar um 3,4%.

Ljóst er að jafnmikil hækkun eignaverðs eins og raun ber vitni hefur mikil auðsáhrif en eignir að baki eignaverðsvísitölunni námu um 4.000 milljörðum í byrjun árs 2004. Rauneign landsmanna jókst því um 96 milljarða í apríl og rauneignir landsmanna hafa aukist um 960 milljarða síðastliðna 12 mánuði. Hafa verður þó í huga að um helmingur eignanna í eignaverðsvísitölunni er íbúðarhúsnæði sem er að meðaltali veðsett upp að u.þ.b 60%. Hins vegar hækkaði húsnæðisverð um rúmlega 3% umfram hækkun vísitölu neysluverðs og því batnaði eiginfjárstaða landsmanna um 60 milljarða en skuldir eru tengdar vísitölu neysluverðs. Ennfremur er vert að hafa í huga að erlendir fjárfestar eiga töluvert í innlendum skuldabréfum og einnig eitthvað í hlutabréfum svo ekki er um að ræða hreina innlenda eign.