Á síðasta ári slátraði Arnarlax 6.000 tonnum af laxi, en á þessu ári er stefnt að því að framleiða 10.000 tonn og á næstu þremur til fimm árum er stefnt að því að framleiðslan nái 20.000 tonnum.

Á síðasta ári nam hagnaður fyrirtækisins um 2,7 milljörðum íslenskra króna fyrir skatta, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.

Er hagnaðartalan fengin með því að meta lífmassann í kvíum fyrirtækisins á markaðsvirði, að því er segir í uppgjöri norska eldisfyrirtækisins Salmar AS sem er hluthafi í Arnarlaxi.

Metið á 16 milljarða íslenskra króna

Eftir sölu Tryggingamiðstöðvarinnar á 3% hlut í félaginu fyrr í vikunni er ljóst að markaðsverðmæti félagsins er um 16 milljarðar íslenskra króna eins og fjallað hefur verið um í Viðskiptablaðinu. Ef skuldum er bætt við myndi heildarverðmæti þess vera nærri 20 milljörðum.

„Nú í ár slátrum við 10.000 fiskum á dag og flytjum út 5-6 daga vikunnar um 100 þúsund hágæða máltíðir að vestan á dag, eða á bilinu 40-50 tonn af slægðum laxi," segir Kjartan Ólafsson, stjórnarformaður félagsins í samtali við Morgunblaðið.

Laxalús og genablöndun áskorun

„Það er þó margt óunnið í uppbyggingu greinarinnar og í þessu samtali við sveitarfélög og samfélagið. Það eru áskoranir eins og laxalúsin og genablöndun ef fiskar sleppa úr kvíum.

Núna fyrst eru að verða til tekjur til skiptanna úr rekstrinum til að nota til að byggja upp ytra umhverfið, eins og gott eftirlit og aðhald, og ná sátt um greinina."

Kollsteypur áður en komust á beinu brautina

Kjartan segist þó vilja fara varlega í að fullyrða að greinin sé komin alveg á beinu brautina.

„Í Færeyjum tóku menn tvær kollsteypur áður en þeir komust á breinu brautina," segir Kjartan sem segir greinina sögulega hafa átt erfitt uppdráttar.

„Það eina sem ég get sagt er að síðasta ár var mjög hagfellt hjá okkur, aðstæður mörkuðum voru góðar, verð á laxi er hátt, og það er fátt sem bendir til annars en að það muni haldast þannig."