Seðlabankinn kynnir nýjan 10.000 króna seðil á morgun en hann verður settur í umferð í lok næsta mánaðar. Að kynningu lokinni verður opnuð sýning um nýja seðilinn í Myntsafni Seðlabankans og Þjóðminjasafns á fyrstu hæð bankans. Á seðlinum verður mynd sem tengist Jónasi Hallgrímssyni og lóu.

Stýrivaxtafundur SBÍ 06.02.20313
Stýrivaxtafundur SBÍ 06.02.20313
© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)

Á sama tíma kynnir Seðlabankinn útgáfu á nýju riti, Fjármálainnviðum. Fram kemur í tilkynningu frá Seðlabankanum að í Fjármálainnviðum er m.a. fjallað um hinn nýja 10.000 króna seðil, um reiðufé almennt og um aðra fjármálainnviði sem má segja að séu eins konar pípulagnir, vegakerfi eða æðakerfi fjármálamarkaða. Þar er einnig gerð grein fyrir nýjum alþjóðlegum reglum um kerfislega þýðingarmikla fjármálainnviði og erlendri athugun á kostnaði við greiðslumiðlun.

Már Guðmundsson seðlabankastjóri greindi fyrst frá því á ársfundi bankans í mars í fyrra að bankinn væri að vinna að útgáfu nýs 10.000 króna peningaseðils. Ástæða þessa sagði hann m.a. verðlagsþróun og aukið seðlamagn í umferð en það hafi gefið tilefni til að meta þörfina fyrir útgáfu nýs peningaseðils með hærra verð.

Nýi peningaseðillinn verður búinn fleiri og fullkomnair öryggisþáttum en hingað til hafa verið í peningaseðlum.