Hlutafé 101 Hótel ehf. hefur verið aukið um 30 milljónir króna og var það 101 Travel ehf. sem lagði féð til. Frá þessu greinir Morgunblaðið og vísar til tilkynningar til Fyrirtækjaskrár Ríkisskattstjóra. Þar segir að áður en hið nýja hlutafé var fært inn í 101 Hótel hafi allt fyrra hlutafé félagsins verið fært niður til jöfnunar taps. Stjórnarformaður 101 Hótel, og fulltrúi 101 Travel, við þessar aðgerðir var Ingibjörg S. Pálmadóttir.

Samkvæmt ársreikingi 101 Hótel varð 14 milljón króna tap af rekstri félagsins árið 2009 en nýrri ársreikningur liggur ekki fyrir. Skuldir félagsins jukust um 18 milljónir króna og voru í árslok rúmar 203 milljónir. Nánast engar vaxtagreiðslur eru bókfærðar á gjaldahlið rekstrarreiknings, samkvæmt frétt Morgunblaðsins, og svo virðist sem neikvæðu sjóðstreymi hafi verið mætt með aukningu skammtímaskulda. Þá var eigið fé neikvætt um rúmar 152 milljónir króna í árslok 2009.

Félagið mun hafa verið í fjárhagslegri endurskipulagningu og var vonast til þess að eigið fé væri orðið jákvætt í lok síðasta árs.