Í gær rann út frestur til að sækja um einbýlishúsalóðir við Valsheiði í Hveragerði sem auglýstar voru fyrir skemmstu. Viðbrögð við auglýsingunni hafa verið sterk og við lok umsóknarfrestsins í gær höfðu borist 101 umsókn í þær 16 lóðir sem til stendur að úthluta. Orri Hlöðversson, bæjarstjóri, segir í frétt á heimasíðu Hveragerðis ekki vera hissa yfir þessari útkomu.

"Þessar tölur koma okkur sem hér störfum að bæjarmálum ekki á óvart. Áhugi fólks og fjárfesta á Hveragerði hefur verið mikill undanfarin misseri og virðist fara vaxandi ef eitthvað er. Þær umsóknir sem borist hafa núna eru úr öllum landshlutum, þótt mest sé um umsóknir héðan af Árborgarsvæðinu og höfuðborgarsvæðinu" segir Orri. Stefnt er á úthlutun lóðanna á næsta fundi bæjarráðs þann 3. mars en þær verða byggingarhæfar í júní næstkomandi.