Fiskeldi Eyjafjarðar hf var gert upp með 102 milljóna króna tapi fyrstu 3 mánuði ársins 2005. Megin ástæðan fyrir slæmri afkomu má rekja til endurmats birgða í matfiskeldisstöð félagsins í Þorlákshöfn vegna fyrirhugaðrar lokunnar stöðvarinnar. Endurmat nam 58,3 millj. til lækkunar á rekstri. Velta félagsins fyrstu 3 mánuði ársins 2005 var um 24 milljónir sem er svipað og árin á undan.

Vergur hagnaður (EBITDA) var neikvæður um 83 milljón króna og veltufé til rekstrar var 86 milljónir. Afskriftir námu samtals um 9 milljónum króna. Tap ársins, án áhrifa hlutdeildarfélagsins, var því 91,6 milljónir króna.

Hlutdeild Fiskeldis Eyjafjarðar hf í tapi Scotian Halibut Ltd. var áætlað 5.6 milljónir og að auki var færð niður langtímakrafa um 5 milljónir

Í árslok námu heildareignir félagsins 381 milljónum króna. Fastafjármunir voru samtals 279 milljónir króna og veltufjármunir 102 milljónir. Þá námu heildarskuldir félagsins 214 milljónum króna og bókfært eigið fé 167 milljónum.

Horfur fyrir yfirstandandi ár

Ljóst er að afkoma Fiskeldis Eyjafjarðar á yfirstandandi ári verður ekki ásættanleg þar sem einn af þremur klakhópum þessa árs gekk illa. Ástæðan er rakin til óvenju hás sjávarhita í Eyjafirði síðastliðið sumar. Nú hefur verið brugðist við því með uppsetningu á sjókælikerfi í klakfiskastöð félagsins á Dalvík.

Útlit fyrir síðasta klakhóp ársins er gott og er reiknað með að framleiða yfir 300 þúsund seiði úr honum, sem gætu skilað um 75 milljónum króna á síðustu 3 mánuðum ársins.

Stefnt er að boðun hluthafafundar í júní þar sem stjórn félagsins mun leggja til að hlutafé félagsins verði fært niður um 80% og heimild verði veitt til þess að selja nýtt hlutafé fyrir allt að 150 milljónir króna og að hluthafar falli frá forkaupsrétti vegna þess.