Vöruskiptaafgangur var 2 milljarðar í janúar og þjónustuafgangur 8,4 milljarðar. Samtals nam viðskiptaafgangur því 10,4 milljörðum og dróst saman um rúm 70% milli ára, en hann nam 35,7 milljörðum í janúar í fyrra. Þetta kemur fram í frétt á vef Hagstofunnar .

Alls nam útflutningur 92,9 milljörðum og skiptist í 52,6 milljarða vöruútflutning og 40,3 milljarða þjónustuútflutning, en innflutningur 82,5 milljörðum og skiptist í 50,5 milljarða vöruinnflutning og 31,9 milljarða þjónustuinnflutning.

Af einstökum undirliðum dróst vöruútflutningur langtum mest saman, um 32,1% milli ára, en vöruinnflutningur minnst, um 2,9%.

Hið fyrrnefnda skýrist af því að útflutningur skipa og flugvéla nam 27,3 milljörðum í janúar í fyrra. Sé hann undanskilinn nam viðskiptaafgangur 8,4 milljörðum í janúar í fyrra og jókst því um fjórðung milli ára nú í janúar.