Í Morgunkorni Glitnis kemur fram að dagvöruvelta hafi aukist um 10,5% í október á breytilegu verðlagi frá sama tíma í fyrra samkvæmt smásöluvísitölu Rannsóknarseturs verslunarinnar.

Frá fyrra mánuði jókst dagvöruvelta um 2,2% á breytilegu verðlagi og um 1,3% á föstu verðlagi. Þá hækkaði smásöluvísitalan í heild um 2,3% á milli mánaða. Aukning varð í öðrum undirliðum smásöluvísitölunnar að áfengissölu undanskilinni samkvæmt því sem segir í Morgunkorninu.

Þessi þróun er til marks um töluverðan þrótt eftirspurnar heimilanna, en smásöluvísitalan gefur ágæta vísbendingu um þróun veigamikils hluta einkaneyslu. Aðrar vísbendingar um þróun einkaneyslu gefa einnig til kynna að einkaneysla hafi vaxið eftir því sem liðið hefur á árið. Lágt atvinnuleysi og mikill kaupmáttur heimilanna styður við þá þróun sem birtist í smásöluvísitölunni segir í Morgunkorni Glitnis.