Eignir verðbréfa-, fjárfestingar- og fagfjárfestasjóða námu 571,5 milljörðum króna í lok október og hækkuðu um 9,2 milljarða milli mánaða, að því er fram kemur í hagtölum Seðlabankans. Eignir verðbréfasjóða námu 265,7 milljörðum króna og hækkuðu um 1,6 milljarða, eignir fjárfestingarsjóða námu 64,9 milljörðum og hækkuðu um 1,3 milljarða og eignir fagfjárfestasjóða námu um 241 milljörðum og hækkuðu um 6,3 milljarða, en einn fagfjárfestingasjóður bættist við í mánuðinum. Alls eru þeir 108 talsins.

Eigendur hlutdeildarskírteina sjóðanna eru að mestu fjármálafyrirtæki (aðallega lífeyrissjóðir og innlánsstofnanir), heimili og önnur fyrirtæki en samanlagt eiga þessir aðilar 88% af heildareignum sjóða.