Þó að Ölgerðin sé 109 ára gamalt fyrirtæki er þetta í raun vaxtarfyrirtæki,“ segir Andri Þór Guðmundsson, forstjóri fyrirtækisins, sem til stendur að skrá á markað í næsta mánuði í fyrsta sinn frá stofnun félagsins árið 1913.

„Undanfarin tuttugu ár hefur vörusalan að meðaltali aukist um 12% á ári og EBITDA rekstrarhagnaður að meðaltali hækkað um 13% á ári,“ bendir Andri á sem verið hefur forstjóri Ölgerðarinnar frá árinu 2004. Það ár nam velta Ölgerðarinnar þremur milljörðum króna. Andri bendir á að Ölgerðin sé í dag stærsti drykkjarvöruframleiðandi landsins, stærsti áfengisframleiðandi landsins, eitt stærsta matvælafyrirtæki landsins og ein stærsta heildsalan. Ölgerðin velti 32 milljörðum á síðasta rekstarári og skilaði methagnaði, 1,7 milljörðum króna.

Afkastagetan sprakk í Covid

Þó að Ölgerðin sé stórt á íslenska mælikvarða telur Andri að enn séu fjölmörg tækifæri til vaxtar. Innanlandsmarkaðurinn sé að stækka með fjölgun ferðamanna og áframhaldandi vexti einkaneyslu. „Við erum að fá mikið af nýjum viðskiptavinum til okkar, sérstaklega í hótel- og veitingageiranum.“

Talsverð breyting hafi orðið á drykkjarvörumarkaðnum þar sem sykurneysla sé að minnka og eftirspurn eftir smærri skömmtum aukist. Hann nefnir sem dæmi að sykur í hverjum seldum lítra hjá Ölgerðinni hefur lækkað um 50% á undanförnum fimm árum. „Tveggja lítra gosið er á undanhaldi en minni skammtastæðir eru að taka yfir. Það er að langmestu leyti vöxtur í 33 cl dósum,“ segir Andri.

„Fyrir sex árum seldum við 15 milljónir dósa en í fyrra seldum við 51 milljón dósa. Afkastagetan var sprungin í fyrra og við vorum að kljást við dósaskort vegna Covid. Vöxturinn hefði verið enn meiri hefði ekki komið til þessa.“ Til að bregðast við þessari þróun fjárfesti fyrirtækið fyrir 2,5 milljarða króna í að auka afkastagetuna. Með nýrri framleiðslulínu fjórfaldast framleiðslugetan í dósum sem Andri segir að opni m.a. á tækifæri til útflutnings á Collab til Norðurlandanna.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .