Jurre Herman, 11 ára hollenskur drengur, hefur lagt til mögulega lausn á skuldavanda evrusvæðisins. Herman tók þátt í hagfræðisamkeppninni The Wolfson Economics Prize. Verkefnið var að finna bestu mögulega lausnina ef til þess kæmi að evrusvæðið leystist upp. Fjöldi þekktra hagfræðinga tók þátt í keppninni en nú hafa fimm bestu tillögurnar verið valdar. Tillaga Herman er meðal þeirra.

Herman segist hafa tekið þátt í keppninni þar sem stöðugur fréttaflutningur af vanda evrusvæðisins hafi valdið honum áhyggjum. Hann segist hafa velt fyrir sér ýmsum lausnum.

Í tillögum sínum líkir Herman skuldavanda Grikkja við pizzu. Hann leggur til að Grikkir skili evrum til að greiða niður skuldir. Í staðinn fyrir evrurnar sem þeir skili fái greitt til baka í drakma sem er gamli gjaldmiðill Grikkja. Skili þeir ekki evrum sínum verði þeir sektaðir um að minnsta kosti sömu upphæð og þeir halda eftir. Herman segir að hugsa megi evrurnar sem á þessu safnist sem stóra peninga-pizzu. Af henni megi skila sneið fyrir sneið til lánadrottna Grikkja.

Nánar er fjallað um málið á fréttavef breska ríkisútvarpsins, BBC. Tillögu Hermans í heild sinni má lesa hér .