Hvannadalshnúkur er hæsti tindur Öræfajökuls, en jökullinn er hluti af Vatnajökulsþjóðgarði. Á vef þjóðgarðsins segir að Hvannadalshnúkur sé 2.110 metrar að hæð og leiðin upp á hann er 11 kílómetrar.

Það er ekki hættulaust að ganga upp á hann enda hafa á liðnum árum orðið slys hjá ferðamönnum við göngur. Helstar eru hætturnar þegar komið er inn á jökulinn sjálfan en þar eru sprungur og ísveggir, auk þess sem þar verða snjóflóð, ís- og grjóthrun. Jafnframt hefur síbreytilegt veður mikil áhrif á öryggi ferðamanna en það er þáttur sem er vanmetinn af mörgum sem um jökulinn fara.

Nokkrar leiðir eru færar á jökulinn en algengast er að lagt sé upp frá Sandfelli. Aðrar algengar leiðir eru Virkisjökulleið, Hnappaleið og Kvískerjaleið en einnig er hægt að fara erfiðari leiðir upp á Hvannadalshryggnum eða upp frá Svínafellsjökli meðfram Svínakambi.

Þú getur lesið meira um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út 8. maí 2014. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .