Samkvæmt bráðabirgðatölum um innheimtu virðisaukaskatts nam vöruinnflutningur í október rúmum 20 milljörðum króna án skipa og flugvéla. Þetta er um 11% meiri innflutningur en í október í fyrra en innflutningur undanfarna mánuði hefur verið nokkuð jafn og er innflutningurinn nú t.d. svipaður meðaltali innflutnings síðustu sjö mánuðina á undan (án skipa og flugvéla).

Ef innflutningur sem af er ári er borinn saman við innflutning í fyrra þá
virðist meðalinnflutningur á mánuði í ár nema tæpum 20 milljörðum króna
borið saman við 17 milljarðar í fyrra, reiknað á föstu verðlagi. Þetta er 17%
aukning milli ára. Meginskýring aukins innflutnings er eins og oft hefur komið fram aukinn innflutningur fjárfestingavara (án flutningatækja) og hrá- og rekstrarvara. Verðmæti innfluttra fólksbifreiða fyrstu 10 mánuði ársins samkvæmt framangreindum tölum jókst um 30% milli ára en aukinn innflutningur þeirra skýrir um tíunda part aukins innflutnings. Verðmæti eldsneytis og smurolía virðist hafa aukist um tæp 35% milli ára enda verð þessara afurða hækkað mikið.

Vöruskiptajöfnuður fyrstu níu mánuði ársins var neikvæður um 27 milljarða
króna, en var þó í jafnvægi í september enda útflutningur með allra mesta
móti. Útflutningur í október gæti einnig verið nokkur þar sem ágætlega hefur
veiðst af þorski, ýsu og ufsa. Karfaafli er aftur á móti minni en á sama tíma í
fyrra sem og kolmunnafli þó veiðar hans hafi glæðst í október frá septembermánuði.

Útflutningur sjávarafurða gæti numið um 10 milljörðum króna sem gæti þá leitt til þess að vöruútflutningur í október yrði á bilinu 16 til 17 milljarðar króna miðað við reynslu undanfarinna mánaða. Vöruskiptajöfnuður í október yrði þá neikvæður um 3-4 milljarða króna. Í spá ráðuneytisins frá í september er gert ráð fyrir 39 milljarða króna halla á vöruskiptum á árinu öllu og yrði þessi niðurstaða í samræmi við hana.