Góður hagnaður varð af rekstri Alfesca hf. (áður SÍF) á 2. ársfjórðungi rekstrarársins 2005-2006. Hagnaður eftir skatta nam 15,3 milljónum evra eða sem nemur ríflega 1,1 milljarði íslenskra króna. Heildarhagnaður á fyrstu sex mánuðum rekstrarársins nam 12 milljónum evra. EBITDA á 2. ársfjórðungi nam 28,5 milljónum evra sem jafngildir 2,1 milljarði króna og 12,2% EBITDA-framlegð. Samanlögð EBITDA fyrstu sex mánuði rekstrarársins nam 30,9 milljónum evra segir í tilkynningu félagsins.

Salan á 2. ársfjórðungi nam samtals 233,7 milljónum evra sem er 4,8% hækkun milli ára. Salan fyrstu sex mánuði rekstrarársins nam 349,9 milljónum evra sem jafngildir 6,3% aukningu milli ára. Eiginfjárstaða Alfesca er traust, eiginfjárhlutfall er 39% en hafa ber í huga að efnahagsreikningur félagsins er nokkuð bólginn í kjölfar þess að aðalsölutímabili er nýlokið.

Sala á öllum helstu vöruflokkum samstæðunnar hefur verið meiri en sem nemur markaðsvexti á fyrstu sex mánuðum rekstrarársins nema hvað sala frystra afurða dróst saman um 8%. Markaðshlutdeild helstu afurðaflokka félagsins styrktist á 2. ársfjórðungi. Hlutdeild laxaafurða frá Labeyrie og Delpierre nam samtals 38,4%, hlutdeild Labeyrie í andalifur (foie gras) nam 26,8%. Lyons Seafoods er með mesta markaðshlutdeild í skelfiskafurðum á markaði í Bretlandi en sala félagsins óx þrefalt meira en salan á markaðnum í heild. Bæði Farne í Skotlandi og Vensy á Spáni skiluðu metsölu á síðasta ársfjórðungi. Farne er eini birgir Tesco í Bretlandi í reyktum laxaafurðum.

Jakob Sigurðsson, forstjóri Alfesca, segist mjög ánægður með afkomu síðasta ársfjórðungs. ?Við jukum við markaðshlutdeild okkar í helstu afurðaflokkum félagsins. Samþætting í rekstri dótturfélaga hefur gengið umfram áætlanir og við sáum áframhaldandi lækkun kostnaðar og betri framleiðni auk þess sem skuldir hafa verið greiddar hraðar niður en áætlanir gerðu ráð fyrir. Þó er ljóst að hátt hráefnisverð á laxi verður enn áhrifavaldur á næsta fjórðungi.?

Sala í janúar var góð og söluhorfur á þriðja ársfjórðungi yfirstandandi rekstrarárs, sem hófst 1. júlí 2005, eru í takt við væntingar. Sala vegna páska verður nú á 4. ársfjórðungi (apríl til júní) og mun sala félagsins á 3. ársfjórðungi markast af því. Ekki er að vænta viðsnúnings á markaði fyrir frystar afurðir. Efling á rekstri dótturfélaga Alfesca og samþætting á rekstri þeirra hefur gengið vel. Er Alfesca því vel í stakk búið til að takast á við áframhaldandi vöxt.