Vöruskipti í júní voru óhagstæð um 1,1 milljarð króna, samkvæmt tölum Hagstofunnar. Í sama mánuði í fyrra voru vöruskiptin hagstæð um 0,2 milljarða. Í júní síðastliðnum voru fluttar út vörur fyrir 42,5 milljarða króna og inn fyrir 43,7 milljarða króna.

Fyrstu sex mánuði ársins var 21,5 milljarða króna afgangur var því á vöruskiptum við útlönd, reiknað á fob verðmæti, en á sama tíma árið áður voru þau hagstæð um 25,9 milljarða. Fyrstu sex mánuðina 2013 voru fluttar út vörur fyrir 293,9 milljarða króna en inn fyrir 272,4 milljarða króna. Vöruskiptajöfnuðurinn var því 4,4 milljörðum króna óhagstæðari en á sama tíma árið áður.

Verðlækkanir á afurðaverði segja til sín
Fyrstu sex mánuði ársins 2013 var verðmæti vöruútflutnings 20,5 milljörðum eða 6,5% minna en á sama tíma árið áður. Iðnaðarvörur voru 52% alls útflutnings og var útflutningur þeirra 9,1% minni en á sama tíma árið áður. Sjávarafurðir voru 44,2% alls útflutnings og var verðmæti þeirra 1,8% minna en á sama tíma árið áður. Hagstofan segir að samdráttur í útflutningi á iðnaðarvörum og sjávarafurðum sé að hluta til vegna verðlækkana á afurðaverði.

Innflutningur á skipum og flugvélum minni en í fyrra
Fyrstu sex mánuði ársins 2013 var verðmæti vöruinnflutnings 16,1 milljarði eða 5,6% minna en á sama tíma árið áður. Hagstofan segir að þetta sé aðallega vegna minni innflutnings á skipum og flugvélum. Einnig minnkaði innflutningur á eldsneyti og hrá- og rekstrarvörum en á móti kom aukinn innflutningur fjárfestingavara.