Landsvirkjun hefur samið við bandaríska og breska fagfjárfesta um útgáfu skuldabréfs í gegnum lokað skuldabréfaútboð á Bandaríkjamarkaði (e. US private placement) að fjárhæð samtals 80 milljónir Bandaríkjadala (jafnvirði um 11 milljarða íslenskra króna).

Útgáfan endurspeglar áherslur fyrirtækisins á fjármögnun tengda sjálfbærni, þar sem vaxtakjör skuldabréfsins eru tengd markmiðum fyrirtækisins um kolefnisbindingu og þar með Heimsmarkmiði Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun númer 13 um aðgerðir í loftslagsmálum.

Skuldabréfaútgáfunni var mjög vel tekið og var umframeftirspurn margföld. Bandarískir og breskir fagfjárfestar mæta þörfum Landsvirkjunar um fjármögnun til skamms tíma í hagstæðu vaxtaumhverfi.  Skuldabréfið er til þriggja ára og ber 2,51% fasta vexti með vaxtagreiðslum á sex mánaða fresti. Andvirði útgáfunnar verður ráðstafað til að endurfjármagna útistandandi skuldir og til almennrar fjárstýringar.

Útgáfan endurspeglar áherslur Landsvirkjunar á sjálfbæra þróun og kemur í kjölfar sjálfbærnitengds veltiláns sem samið var um árið 2019 að fjárhæð 150 milljónir Bandaríkjadala (jafnvirði um 20 milljarða króna) og útgáfu grænna skuldabréfa árið 2018 fyrir 200 milljónir Bandaríkjadala (jafnvirði um 27 milljarða króna).

Fyrsta evrópska útgáfan tengd Heimsmarkmiðunum á lokuðum skuldabréfamarkaði í Bandaríkjunum.

Landsvirkjun er fyrsti evrópski skuldabréfaútgefandinn til þess að gefa út skuldabréf tengt Heimsmarkmiðunum í gegnum lokað skuldabréfaútboð á Bandaríkjamarkaði. Þá er útgáfan með þeim fyrstu í Evrópu sem tengdar eru Heimsmarkmiðunum og undirstrikar hún frumkvæði og forystu Landsvirkjunar á þessum ört vaxandi vettvangi.

Með útgáfunni hefur Landsvirkjun skuldbundið sig til að auka kolefnisbindingu í að minnsta kosti 32.538 tonn CO2 ígilda árið 2020 (a.m.k. 2% aukning úr 31.900 tonnum CO2 ígilda árið 2019). Takist Landsvirkjun ekki að uppfylla það skilyrði munu vaxtakjör skuldabréfsins hækka um 0,1%. Er skuldbindingin því beintengd markmiðum Landsvirkjunar um að verða kolefnishlutlaus árið 2025.

Barclays var umsjónaraðili útgáfunnar. Lögfræðiráðgjafar Landsvirkjunar voru Logos og Morrison & Foerster, en alþjóðlega lögfræðistofan Greenberg Traurig var lögfræðiráðgjafi fjárfesta.

Hörður Arnarson , forstjóri Landsvirkjunar:

„Við erum ánægð með aðra vel heppnaða útgáfu í gegnum lokað skuldabréfaútboð á Bandaríkjamarkaði og þann stuðning sem fjárfestar okkar sýna. Útgáfan staðfestir aðgang fyrirtækisins að fjölbreyttu lánsfé á hagstæðum kjörum,“ segir Hörður.

„Sjálfbær þróun og umhverfismál eru kjarni í samfélagsábyrgð Landsvirkjunar og erum við því stolt af því að vera fyrsti útgefandi í Evrópu til þess að gefa út skuldabréf tengt Heimsmarkmiðunum í gegnum lokað skuldabréfaútboð á Bandaríkjamarkaði. Það styrkir Landsvirkjun í þeirri vegferð að verða kolefnishlutlaus árið 2025.“