Veltan á skuldabréfamarkaði í dag nemur 11,3 milljörðum króna nú þegar klukkan er 10:30. Ekkert lát virðist því vera á þeim miklu viðskiptum sem hófust seinni partinn í síðustu viku. Nú í morgun hafa langmest viðskipti verið með bréf í flokknum RIKB 19, sem eru óverðtryggð ríkisskuldabréf. Þar nemur veltan tæpum 4,8 milljörðum.

Helstu skýringarnar á viðskiptunum í morgun gætu verið þær að það styttist óðfluga í að ríkisstjórnin birti tillögur um skuldaniðurfellingu. Þá voru verðbólgutölur birtar í morgun. Þær sýna að tólf mánaða verðbólga hækkar úr 3,6% í 3,7%. Þetta er ekki í samræmi við spár greiningaraðila sem ýmist spáðu því að verðbólga myndi standa í stað eða fara niður í 3,5%.