Tap Icelandair Group nam 1,1 milljarði króna eftir skatta á fyrsta ársfjórðungi 2011. Heildarvelta félagsins var 16 milljarðar króna á fyrsta ársfjóðrungi 2011 og minnkaði um 2% á milli ára. Félagið birti ársfjórðungsuppgjör sitt í dag.

Hagnaður fyrir fjármagnsliði, afskriftir og skatta (EBITDA) var neikvæð um 0,2 milljarða króna en var jákvæð um 0,2 milljarða króna árið á undan.

EBIT var neikvæð um 1,4 milljarða króna en var neikvæð um 1,2 milljarða á sama tímabili árið áður. Afskriftir voru 1,2 milljarðar króna sem er lækkun um 0,1 milljarð frá fyrra ári. Fjármagnskostnaður var 0,4 milljarðar króna samanborið við 0,7 milljarða króna árið áður. Tap eftir skatta var 1,1 milljarður króna en tap eftir skatta nam 1,9 milljörðum króna á sama tíma árið 2010.

Handbært fé og skammtímaverðbréf í lok ársfjórðungsins námu 18,1 milljörðum króna, en námu 13,0 milljörðum í árslok 2010. Heildareignir námu 91,4 milljörðum króna og eiginfjárhlutfall var 30% í lok fyrsta ársfjórðungs 2011, en voru 84,2 milljarðar og 34% í lok árs 2010

Björgólfur Guðmundsson, forstjóri félagsins,segir í tilkynningu að tap félagsins lækkaði milli ára þrátt fyrir miklar hækkanir á eldsneytisverði.

„Tapið nam 1,1 milljarði króna samanborið við 1,9 milljarða króna á sama tíma í fyrra. EBITDA var neikvæð um 0,2 milljarða króna en var jákvæð um 0,2 milljarða á síðasta ári. Olíuverð var að meðaltali 42% hærra núna en á fyrsta fjórðungi síðasta árs. Kostnaðarhækkun samstæðunnar vegna þessa nemur um 0,8 milljörðum. Í ljósi ytri aðstæðna erum við sátt við afkomu ársfjórðungsins," segir Björgólfur í tilkynningunni.

„Framboð í alþjóðlegu farþegaflugi samstæðunnar var aukið um 12% á milli ára og jókst farþegafjöldi um 13%. Farþegaaukning varð á öllum okkar mörkuðum þó mest á Norður-Atlantshafsmarkaðnum um 20%. Sætanýting Icelandair var sú hæsta sem áður hefur mælst á þessu tímabili eða 71%. Bókunarstaða fyrir komandi mánuði er góð og stefnir í metfjölgun ferðamanna til Íslands á árinu.   Gengisþróun Evru og dollars hefur verið félaginu hagstæð og vegur það að hluta upp á móti hærra eldsneytisverði. EBITDA spá félagsins fyrir árið í heild er því óbreytt 9,5 milljarðar.

Félagið er fjárhagslega sterkt. Handbært fé og skammtímaverðbréf í lok fjórðungsins námu um 18 milljörðum sem er hækkun um ríflega 5,1 milljarð frá upphafi árs. Eigið fé nemur 29,4 milljörðum og eiginfjárhlutfall er 30%.“