Fyrstu 158 daga ársins 2008 hafa 11.113 ökutæki verið nýskráð miðað við 12.494 ökutæki eftir jafn marga skráningardaga á síðasta ári.

Þetta er 11% lækkun milli ára samkvæmt upplýsingum frá Umferðarstofu.

„Fyrstu 53 daga ársins hafði nýskráning ökutækja hinsvegar aukist um 46,8% miðað við sama tímabil í fyrra og má því sjá að mikill viðsnúningur hefur átt sér stað í fjölda nýskráninga það sem af er árinu,“ segir á vef Umferðarstofu.

Tekið skal fram að hér er um að ræða nýskráningu á öllum tegundum ökutækja.

Eigendaskipti ökutækja eru færri það sem af er árinu en á sama tímabili í fyrra. Skráð eigendaskipti fyrstu 158 daga ársins voru 39.663 en voru 44.286 á sama tímabili í fyrra.

„Þetta þýðir að það hefur orðið -10,4% samdráttur í eigendaskiptum miðað við sama tímabil í fyrra,“ segir á vef Umferðarstofu.

Þess má geta að fyrstu 53 daga ársins var aukning í eigendaskiptum og nam sú aukning 2,6% miðað við sama tíma í fyrra.