*

þriðjudagur, 19. október 2021
Innlent 29. mars 2021 13:48

11 tilnefningar Pipar\TBWA og The Engine

Fengu 11 tilnefningar til European Search Awards. Tilnefningarnar eru fyrir þrjú fyrirtæki; Lanullva, Olís og Verkfærasöluna.

Ritstjórn
Haukur Jarl Kristjánsson og Hreggviður Magnússon hjá Pipar\TBWA og The Engine.
Aðsend mynd

Pipar\TBWA og The Engine fengu 11 tilnefningar til European Search Awards. Verðlaunahátíðin er haldin af Don´t Panic samtökunum sem standa fyrir flestum af stærstu markaðsverðlaunum heims sem sérhæfa sig í netmarkaðssetningu og eru þessi verðlaun fyrir það sem best er gert í Evrópu. Tilnefningarnar eru fyrir þrjú fyrirtæki; Lanullva (norskt ullarvörumerki), Olís og Verkfærasöluna.

„Þetta eru frábærar fréttir og gaman að geta fylgt eftir og bætt við frábærum árangri okkar í fyrra þar sem við unnum m.a. besta PPC herferð heims fyrir Gray Line. Það er gaman líka að nú eru aðrir viðskiptavinir hjá okkur að fá tilnefningar. Olís var að vísu með tvær tilnefningar í fyrra en fá fimm núna. Lanullva er skemmtilegur viðskiptavinur sem við erum með í Noregi. Við tókum við þeim viðskiptavini í fyrra og breyttum öllu, allt frá vörumerki og útliti að skilaboðum og herfræði. Það borgaði sig heldur betur fyrir þetta 30 ára gamla fyrirtæki sem hefur nú margfaldað sölu sína á nokkrum mánuðum. Lanullva fær alls fimm tilnefningar til European Search Awards. Svo er það Verkfærasalan sem fær eina tilnefningu en árangurinn þar er lygilegur,“ segir Haukur Jarl Kristjánsson, umsjónarmaður stafrænna herferða hjá Pipar\TBWA og The Engine.

„Þetta er fyrst of fremst viðurkenning fyrir það góða starf sem við erum að gera fyrir okkar viðskiptavini. Það er alltaf hvetjandi að fá tilnefningar og verðlaun en einnig mjög lærdómsríkt að undirbúa innsendingarnar og sjá hvernig dómarar líta á vinnu okkar. Við getum svo notað endurgjöfina til að bæta okkur og gera enn betur," segir Hreggviður Magnússon, leiðtogi stafrænnar vinnu hjá Pipar\TBWA.