Á málstofu Seðlabanka í dag var niðurstaða greiningar á stöðu íslenskra heimila kynnt. Greininguna unnu þau Þorvarður Tjörvi Ólafsson og Karen Á. Vignisdóttir, hagfræðingar á hagfræði- og peningastefnusviði Seðlabanka Íslands.

Meðal þess sem þar kemur fram er að afrakstur 110% leiðarinnar og sérstöku vaxtaniðurgreiðslunnar virðast að verulegu leyti hafa fallið í skaut heimila sem eru ekki í greiðsluvanda. Samkvæmt því hafi aðgerðirnar því haft takmörkuð áhrif á umfang greiðsluvanda.

Þá kemur fram að flest þeirra heimila sem eru í skuldavanda eru tekjuhá heimili á meðan flest heimili í greiðsluvanda eru tekjulág. Tíundi hver skuldsettur húseigandi er bæði í greiðslu- og skuldavanda og eru flestir þeirra með gengistryggð lán auk þess að vera fremur barnafjölskyldur en heimili án barna.

Athyglisvert er að skoða þær forsendur sem liggja til grundvallar rannsóknarinnar. Metin eru áhrif þeirra áfalla sem íslensk heimili urðu fyrir eftir hrun og er tekið tillit til ýmissa aðgerða sem hafa verið kynntar til sögunnar. Farið er yfir breytingar á helstu hagstærðum á þessu fjögurra ára tímabili:

Frá hápunkti til lágpunkts á þessu fjögurra ára tímabili nemur gengislækkunin 60%, hækkun vísitölu neysluverðs 37,5%, raunlaunalækkunin 13,5%, aukning atvinnuleysis 8,5% og húsnæðisverðslækkunin 34% að raunvirði.

Hægt er að skoða kynningarefni frá fundinum hér .