Frá árinu 2010 hefur Landsvirkjun lækkað skuldir sínar um 100 milljarða. Á sama tíma hefur verið fjárfest fyrir 90 milljarða króna. Stór hluti þeirrar fjárhæðar er vegna framkvæmda við tvær nýjar virkjarnir. Verið er að stækka Búrfellsvirkjun um 100 MW og þá er verið að byggja 90 MW jarðvarmavirkjun við Þeistareyki. Þetta kom fram í máli Harðar Arnarsonar, forstjóra Landsvirkjunar, á ársfundi fyrirtækisins á miðvikudaginn.

Landsvirkjun er að fullu í eigu ríkisins og sagði Hörður að árunum 2010 til 2016 hefði Landsvirkjun greitt um 8 milljarða króna í arð eða um 1,5 milljarð á ári. Hann sagði að vissulega væri það dágóð upphæð en samhengi við sjóðstreymi fyrirtækisins mældist hún varla.

Sterk staða

Hörður sagði að stefnt væri að því að greiða áfram niður skuldir á næstu árum samhliða því að auka arðgreiðslur. Hann sagðist reikna með því að árið 2020 verði ákveðin tímamót því þá verði staða fyrirtækisins orðin enn sterkari en hún væri í dag.

„Ef við horfum á tímabilið frá 2020 til 2026 þá teljum við að arðgreiðslur á því tímabili gætu orðið um 110 milljarðar," sagði Hörður. Það þýðir að á því sjö ára tímabili mun fyrirtækið greiða um 15,7 milljarða á ári til ríkisins í arð.

„Þetta er fyrsta og fremst drifið áfram af því að fjármunamyndunin á eftir að batna enn frekar. Í fyrsta lagi er búið að lækka skuldirnar og þær munu lækka enn frekar fram til ársins 2020. Þetta þýðir að vaxtagjöld fyrirtækisins munu lækka. Í öðru lagi erum við að fá tvær virkjanir inn í reksturinn, sem munu framleiða um eina teravattstund. Þær munu koma inn í okkar bækur á sama tíma og skuldir lækka. Tekjurnar munu því koma mjög sterkt inn — beint í sjóðstreymið. Í þriðja lagi þá erum við búin að endursemja við einn af okkar stærstu viðskiptavinum, Norðurál. Það mun líka auka okkar tekjur. Við eigum því að hafa fulla getu til þess að greiða út arð á þessum nótum."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .