Barack Obama forseti Bandaríkjanna  kom í dag til Indands og var þá tilkynnt um að til stæði að gera 10 milljarða dala viðskiptasamning við Indland og útflutningur frá Bandaríkjunum til Indlands væri gefinn frjálsari.  Eru það tæpir 1.100 milljarðar íslenska króna.  Þetta kemur fram á vef Wall Street Journal.

Fyrirhuguð viðskipti eru milli bandarískra fyrirtækja og ríkisstjórnar Indlands og fyrirtækja þar í landi.  Boeing verksmiðjurnar eru meðal annars aðili að samkomulaginu, en verðmæti þess fyrir Boeing er um sjö milljarðar dala.

Ferð Obama til Indlands er upphaf níu daga ferðalags hans um Asíu.  Hefur forsetinn lagt mikla áherslu á að bæta samskipti sín við viðskiptalífið í Bandaríkjunum eftir mikið tap í kosningunum sl. þriðjudag.  Bandarísk fyrirtæki lögðu mörg hundruð milljóna dala í kosningabaráttuna en aðallega til Repúblíkanaflokksins.