Enn er aukið við áður boðuð útgjöld ríkissjóðs samkvæmt fjárlagafrumvarpi. Fjárlaganefnd fundaði í dag og hefur meirihluti komist að samkomulagi um að veita 1.100 milljónum til viðbótar við aukaframlög sem hafa verið boðuð til heilbrigðis- og menntamála. Þetta segir Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar í samtali við Viðskiptablaðið.

„Það sem að við vorum að gera núna, meirihluti fjárlaganefndar, var að ráðstafa rúmlega 1.100 milljónum til viðbótar. Það byggir á okkar tillögum og eru viðbrögð við vinnunni í vetur þar sem hafa komið fjölmargir fulltrúar sveitarfélaga og fleira og haldið á lofti sínum sjónarmiðum. Það sem nú er verið að taka fyrir er þriðja grunnstoð samfélagsins, samgöngur," segir Vigdís.

500 milljónir í flugvelli

Aðspurð hvernig fjárhæðin sundurliðast eftir verkefnum segir Vigdís: „500 milljónir munu fara aukalega í flugvelli hringinn í kringum landið. Við leggjum 300 milljónir í ljósleiðaravæðingu landsins, 170 milljónir aukalega til Vegagerðarinnar frá þeim tillögum sem eru í frumvarpinu og svo eru einstaka verkefni sem eru að fá aukaframlög. Til dæmis bætast 60 milljónir í Kvikmyndasjóð og 60 milljónir í rannsóknir á ferðamannaiðnaðunum hér á landi," segir Vigdís.

Þá muni skattrannsóknarstjóri fá 26 milljónir aukalega til að geta grynnkað á verkefnastöðu hjá embættinu. Smærri fjárhæðir muni renna í önnur verkefni. Vigdís segir ráðstöfunina endurspegla þá forgangsröðun ríkisstjórnar Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks að samgöngumál séu talin hluti af mikilvægri grunnþjónustu hins opinbera.

Ekkert í að greiða skuldir

Aðspurð hvort eitthvað renni í að greiða niður skuldir ríkissjóðs af þeim aukaútgjöldum sem hafi verið boðuð segir Vigdís svo ekki vera. „Nei. Það er ekki gert að sinni," segir hún. „Það var tekin ákvörðun hjá stjórnvöldum að gera þetta svona í þetta sinn til að reyna að koma til móts við fjársveltandi grunnstoðir," bætir hún við.

Ekki megi þó líta hjá því að boðaður sé um 4 milljarða afgangur af rekstri ríkissjóðs á næsta ári. En betur má ef duga skal. „Vextirnir sem eru greiddir af skuldum ríkissjóðs eru himinháir og eiginlega óbærilegir. Þeir eru 82-85 milljarðar á ári sem jafngildir byggingu nýs Landspítala á hverju ári."

Á næstunni muni þurfa að ráðast í stórfelldar aðgerðir til að greiða niður skuldir ríkissjóðs. Ekki verði nóg að selja einstaka eignir ríkisins að mati Vigdísar, en það sé fjármálaráðherra að ákveða og boða hverskonar aðgerðir um ræði í því samhengi.