Frá árinu 2014 hefur orðið 1100% vöxtur hjá fyrirtækinu Guide to Iceland sem starfar sem stafrænt markaðstorg fyrir ferðaþjónustufyrirtæki á Íslandi.

Fyrirtækið var stofnað árið 2012 og hefur vaxið jafnt og þétt. Farið var af stað með hugbúnaðinn árið 2014 og voru fáein fyrirtæki fengin til að prófa hann í upphafi. Opnað var fyrir fleiri fyrirtæki á síðasta ári en heildarfjöldi fyrirtækja sem nota Guide to Iceland í dag er nú orðinn yfir 500 talsins. Heildarvelta fyrirtækisins á síðasta ári nam rúmlega 1,1 milljarði króna.

Starfsmenn fyrirtækisins eru nú orðnir 26 talsins. „Síðasta ár var alveg ótrúlega árangursríkt hjá fyrirtækinu en það lítur svo út fyrir að þetta ár verði ennþá betra. Söluaukningin frá síðasta ári stendur nú í 451%, sem gefur til kynna að heildarvelta þessa árs verði 5,5 milljarðar,“ segir Ólafur Ólafsson, sölustjóri hjá Guide to Iceland.