Hagnaður Kaupþings banka (KB banka) eftir skatta á fyrsta ársfjórðungi nam 11.093 milljónum króna, jókst um 266,4% miðað við sama tímabil 2004. Hagnaður á hlut á fyrsta ársfjórðungi nam 17,0 krónum samanborið við 6,9 krónur miðað við sama tímabil 2004. Arðsemi eigin fjár hluthafa eftir skatta var 33,2%, en var 29,3% á fyrsta ársfjórðungi 2004.

Hreinar rekstrartekjur á fyrsta ársfjórðungi 2005 námu 21.825 m.kr., jukust um 126,5% frá sama tímabili árið 2004. Rekstrarkostnaður nam 6.605 m.kr. á fyrsta ársfjórðungi, jókst um 33,6% frá sama tímabili í fyrra, kostnaðarhlutfall á fyrsta ársfjórðungi var 30,3%.

Heildareignir námu 1.676 milljörðum króna þann 31. mars 2005 og hafa aukist um 7,8% frá áramótum. 62% af rekstrartekjum bankans á fyrsta ársfjórðungi mynduðust utan Íslands og hefur hlutfallið aldrei verið hærra.

Fjármögnunarleigufyrirtækið Lýsing hf, dótturfélag bankans, var selt fyrir 6,1 milljarð króna, söluhagnaður nam tæpum 3 milljörðum króna. Kaupþing banki hefur í dag sent frá sér tilkynningu um tilboð bankans í breska bankann Singer & Friedlander Group plc.

?Afkoman á fyrsta ársfjórðungi sýnir að rekstur bankans er á réttri leið, hagnaður hefur aldrei verið meiri á einum ársfjórðungi og bankinn hefur styrkt stöðu sína á öllum markaðssvæðum. Bætt afkoma skýrist fyrst og fremst af auknum tekjum, þótt það sé vissulega ánægjulegt að sjá heildarkostnað minnka á milli ársfjórðunga. Tekjur aukast á öllum markaðssvæðum. Um 62% af tekjum bankans myndast nú utan Íslands og hefur það hlutfall aldrei verið hærra. Ætla má að þetta hlutfall verði komið upp í um 80% í lok þessa árs. Áfram er unnið að samþættingu mismunandi starfsþátta bankans og er búist við að sú vinna skili sér í auknum tekjum á komandi misserum. Á fyrsta ársfjórðungi voru jafnframt mikilvæg skref stigin til að styrkja stöðu bankans sem alþjóðlegs fjárfestingarbanka. Horfur eru góðar á öðrum fjórðungi þessa árs og því ekki tilefni til að ætla annað en að bankinn nái áfram arðsemismarkmiði sínu," sagði Hreiðar Már Sigurðsson, forstjóri um uppgjörið í tilkynningu frá bankanum.