*

þriðjudagur, 28. september 2021
Innlent 26. maí 2020 17:52

112 ára bankasögu Bolungarvíkur lýkur

Landsbankinn tilkynnir um lokun útibús í nærri þúsund manna bæjarfélagi. Bjóða eldri borgurum þjónustuheimsóknir.

Ritstjórn
Sparisíður Bolungarvíkur, og síðar útibú Landsbankans í bænum, var lengst af til húsa í Ráðhúsi bæjarins, en á seinni árum var afgreiðsla Íslandspósts þar einnig til húsa og samnýtt bankanum.
Haraldur Guðjónsson

Afgreiðsla Landsbankans í Bolungarvík mun sameinast útibúinu á Ísafirði þann 1. júlí næstkomandi segir í tilkynningu á vef bankans og verður þar með afgreiðslunni í bænum lokað.

Landsbankinn hefur frá árinu 2015 rekið afgreiðslu í Ráðhúsi Bolungarvíkur en bankinn segir að samhliða aukinni notkun á stafrænni þjónustu hafi eftirspurn eftir gjaldkeraþjónustu minnkað mikið.

Bankastarfsemi í bænum má rekja aftur til ársins 1908, þegar Sparisjóður Bolungarvíkur var stofnaður. Hann var síðan sameinaður Sparisjóði Norðfjarðar árið 2014 sem Landsbankinn tók síðan formlega yfir 4. september 2015.

Samkvæmt fréttum á sínum tíma varð Sparisjóður Bolungarvíkur tæknilega gjaldþrota í kjölfar hrunsins haustið 2008, en eftir það fór fór Bankasýsla ríkisisn með um 91% stofnfé sjóðsins og um 80% af stofnfé Sparisjóðs Norðurlands.

Sparisjóðsstjórinn í bænum sagði upp störfum í kjölfar þess að skýrsla bankasýslunnar fjallaði um 250 milljóna tap af lánum til eigenda pitsustaðar í Reykjavík. Viðskiptablaðið sagði síðan frá því fyrir fimm árum að sameining útibúa sjóðsins, sem þá hét Sparisjóður Norðurlands við Landsbankann hafi 11 manns misst vinnuna hjá sjóðnum.

Með því að taka yfir sparisjóðinn á sínum tíma tók bankinn yfir starfsemi á Bolungarvík og Suðureyri á Vestfjörðum og Dalvík, Þórshöfn, Raufarhöfn og Kópasker á Norðurlandi. Landsbankinn segir í tilkynningu að hann muni áfram reka hraðbanka í Bolungarvík sem verði aðgengilegur allan sólarhringinn.

Útibú bankans á Ísafirði verður svo opið frá kl. 9-16 alla virka daga en vegalengdin þangað frá Bolungarvík er nú um 13 km. Þá mun Landsbankinn einnig bjóða þjónustuheimsóknir fyrir eldri borgara í Bolungarvík.

Þess má geta að meðaltekjur í bænum eru með því hæsta sem gerist, en jafnframt borgar bæjarbúar einna hæstu veiðigjöldin, en þau voru áætluð 350 þúsund á íbúa árið 2017. Fiskifréttir hafa greint frá því hvernig kvóteign íbúanna hafi náð sér vel á strik síðustu ár eftir að hafa tapað nær öllum kvótanum um aldamótin síðustu.

Hér má lesa frekari fréttir um bankastarfsemi og tengd mál í Bolungarvík: