Nokia hefur nú kynnt farsíma fyrir auðuga og glysgjarna notendur en hann er þakinn eðalsteinum, nánar tiltekið 112 demöntum upp á samtals 0,7 karöt.

Um er að ræða Nokia 8800 Arte-símann svo kallaða, og er gripurinn útbúinn í samvinnu við þekktan norska gullsmíðaverslun, Heyerdahl Juvelérs, sem Thomas Heyerdahl veitir forstöðu.

Það fyrirtæki hefur m.a. lagt gjörva hönd á dýrasta iPod í heimi og dýrasta þráðlausa símann.

„Við vildum hafa steinana yfir eitt hundrað talsins til að hann yrði virkilega tilkomumikill,” sagði Heyerdahl þegar síminn var afhjúpaður fyrir helgi.

Breytt í skartgrip eftir úreldingu

Aðeins 100 eintök verða framleidd samkvæmt fréttavefnum E24.

En hvað verður um demantana þegar síminn er úreltur og úr sér genginn? Þá býðst Nokia til að veita símanum viðtöku að nýju og láta útbúa skartgrip úr steinunum.