Rekstrarafgangur Strætó bs. á fyrstu sex mánuðum ársins nam 112 milljónum króna, sem er um 25 milljónum lægra en árið á undan. Árshlutareikningur fyrirtækisins fyrir fyrstu sex mánuði ársins var samþykktur á fundi stjórnar í dag. Í tilkynningu segir að reksturinn sé í megindráttum í samræmi við áætlanir.

Heildartekjur Strætó bs. á fyrstu sex mánuðum ársins 2014 námu 2.490 milljónum króna. Þar af voru fargjaldatekjur um 614 milljónir, sem er hækkun um 4% frá sama tíma 2013. Rekstrargjöld námu 2.312 milljónum króna og jukust um 3,6%. Eigið fé 30. júní var um 1.425 milljónir króna en var 1.313 milljónir í árslok 2013.

Í tilkynningunni segir að skrifað hafi verið undir samning um kaup á 20 nýjum strætisvögnum í júlí fyrir um 690 milljónir króna. Vagnarnir verða afhentir um næstu áramót. Þá voru keyptir 12 nýir vagnar í lok árs 2013. Gert er ráð fyrir að allur vagnafloti Strætó verði endurnýjaður á næstu árum.