Vísitala neysluverðs miðuð við verðlag í júlí 2009 er 345,1 stig og hækkaði um 0,17% frá fyrra mánuði. Það þýðir að 12 mánaða verðbólga mælist nú 11,3% og lækkar úr 12,2% frá fyrra mánuði.

Hagstofa Íslands birti í morgun vísitölu neysluverðs en á myndinni hér til hliðar má sjá þróun 12 mánaða verðbólgu síðustu 5 árin. Þar sést hvernig verðbólgan náði hámarki í janúar á þessu ári eða 18,6%.

Síðan þá hefur verðbólgan farið lækkandi að júní undanskildum og hefur nú lækkað um 7,3 prósentustig frá því í janúar. 12 mánaða verðbólga er því á svipuðu róli og hún var í apríl í fyrra.

Á vef Hagstofunnar kemur fram að sumarútsölur eru í fullum gangi og lækkaði verð á fötum og skóm um 7,3% (vísitöluáhrif -0,43%). Kostnaður vegna eigin húsnæðis lækkaði um 2,6% (-0,35%) og voru áhrif af lækkun markaðsverðs -0,32% en af lækkun raunvaxta -0,03%.

Þá hækkaði verð á bensíni og díselolíu um 4,8% (0,23%). Þar af voru áhrif af hækkun bensíngjalds 0,28%. Verð á húsgögnum og heimilisbúnaði hækkaði um 4,7% (0,16%) og verð nýrra bíla hækkaði um 3,4% (0,12%).