Í frétt á vefsvæði ríkisstjórnarinnar kemur fram að 11.500 heimili eru ekki lengur yfirveðsett. Samkvæmt athugun sem ríkisskattstjóri gerði fyrir stjórnvöld lækkuðu skuldir heimila um 3-4% frá 2010 til 2011 eða um 9% að raunvirði. Lækkunin er meiri meðal ungs fólks en þeirra sem eldri eru. Ennfremur sýnir athugunin að yfirveðsettum heimilum hefur fækkað úr 25.876 í 14.412 eða sem nemur tæplega 11.500 heimilum.

Í fréttinni er fjallað um niðurstöður Seðlabankans um skuldastöðu heimilanna. Í rannsókninni er leitast við að meta áhrif ýmissa aðgerða til að draga úr greiðsluvanda fólks. Í fréttinni segir meðal annars:

„Niðurstaðan er mjög skýr: lítill árgangur næst með almennum aðgerðum. Rannsóknin sýnir að almenn skuldaniðurfærsla er dýr og kemur einungis að litlu leyti til móts við þá sem eru í greiðsluvanda. Þessar niðurstöður koma ekki á óvart, þar sem þær komu skýrt fram í fyrri rannsókn Seðlabankans en einnig í skýrslu sérfræðingahóps á vegum stjórnvalda síðla hausts 2010. Þessar skýrslur voru mótandi um þá stefnu sem ríkisstjórnin tók m.a. með stuðningi stjórnarandstöðunnar. Í þessu sambandi er rétt að taka fram að 110 prósenta leiðinni var ekki ætlað sérstaklega að taka á greiðsluvandanum en viðurkenna varð þann vanda sem yfirveðsett heimili glímdu við. Skuldavandi gerir viðskipti með fasteignir erfið, veldur átthagafjötrun, getur leitt til vanskila vegna skorts á greiðsluvilja og frekara verðfalls á fasteignamarkaði. Þetta voru rökin fyrir því að stjórnvöld lögðu til 110 prósenta leiðina með fjármálastofnunum.“